Sigurður Skúlason

Umsagnir
1957 – 2014

Brot

1957-1967

Ferðin til tunglsins (Þ. ´57)
„Dansarnir, sem Bidsted ballettmeistari hefur samið og stjórnað, eru fagrir og listilega stignir af hinum ungu dansendum, sem búa yfir mýkt og yndisþokka æskunnar.“
(Sigurður Grímsson í Mbl.)

Listdanssýning (Þ. ´58)
„Næst þessu var sýndur kátur og skemmtilegur ballett, Brúðubúðin.  Þessi ballett vakti mikla hrifningu, e.t.v. ekki síst fyrir það, að þar dansaði mikill fjöldi barna, bæði sem brúður og kostulegir negrastrákar og stelpur.“
(S.S. í Tímanum)

„Þarna (í Brúðubúðinni) kemur manni margt skemmtilega á óvart…….og þá ekki síður svertingjarnir litlu, sem velta skyndilega fram á sviðið og dansa af mestu prýði.“
(Sigurður Grímsson í Mbl.)

Einkennilegur maður (LÆ ´63)
„Sigurður Skúlason leikur soninn Útigang. Það mætti ætla, að þetta hlutverk væri skrifað fyrir Sigurð, svo vel tekst honum að velta sér í þessu gervi Reykjavíkurunglings og gúmmídrengs, sem er útrekinn úr stofunni hans pabba síns. Útigangur er mátuleg sneið handa því hyski, sem rekur börnin úr stofum sínum út í sjoppurnar. Þó er Sigurður ekki jafnvígur á orð og hreyfingar í þessu hlutverki.“
(Baldur Óskarsson í Mbl.)

„…og Sigurður Skúlason gerir Útigangi það góð skil, að hann ber  af öðrum leikendum, nema Valdemar (Lárussyni).“
(Loftur Guðmundsson í Vísi)

Næst skal ég syngja fyrir þig (Þ. ´66)
„Það er Sigurður Skúlason sem leikur Dust, óþekktur leikari, ungur, búinn athyglisverðum hæfileikum ef dæma má eftir frumraun hans, og var þó undirbúningur hans í skemmsta lagi, (hljóp inn viku fyrir frumsýningu). Sigurður hefur skýran talanda, nær víða mjög athyglisverðri raddbeitingu, þótt ekki leynist byrjandinn. Viðbrögð hans eru vel lærð, en skortir mýkt hins reynda, hreyfingar snöggar, en oft heldur losaralegar, en óvenjuleg festa er þó yfir hversu hann tekur og skilar verkefni sínu.“
(Agnar Bogason í Mánudagsblaðinu)

„Sigurður Skúlason lék hlutverk Dusts, „lærdómsmannsins“, og gerði undragóða hluti þegar þess er gætt að hann hljóp inn í hlutverkið með tíu daga fyrirvara. Hann er enn við leiknám, og gætti að sjálfsögðu hjá honum nokkurs viðvaningsbrags í limaburði og framsögn, en í heild skilaði hann hlutverkinu með sóma og átti oft mjög góða spretti. Texti hans var erfiður og furðulegt hve vel hann komst frá honum. Hér er á ferðinni mikið efni, ef nokkuð má ráða af þessari frumraun.“
(Sigurður A. Magnússon í Mbl.)

1967-1977

Candida (Þ. ´69)
„En meiri tíðindum sætti í sýningunni mótherji séra Morells, Eugene Marchbanks sem Sigurður Skúlason lék.  Sigurður hefur áður komið vel og drengilega fyrir á leiksviði, en Marchbanks er ótvírætt hans bezta hlutverk til þessa, teinungur af manni, fjarska skrýtinn og skoplegur, en teinungur af því tagi sem ævinlega réttir sig upp aftur, óbrjótandi. Sigurður gerði skáldið eins skrýtið og kvenlegt og verða mátti án þess að rjúfa raunsæismörk leiksins, og vakti mesta kátínu í sýningunni; einungi rödd hans virtist full einhæf og fábreytileg enn sem komið er. En ótvírætt vann Sigurður sinn fyrsta umtalsverða sigur á leiksviði með þessu hlutverki.“
(Ólafur Jónsson í Alþýðublaðinu)

„Það sem mest kemur á óvart er aftur á móti leikur Sigurðar Skúlasonar í hlutverki skáldsins Eugenes Marchbanks. Sigurður nær svo áleitnum tökum á þessu hlutverki, að eftir að hann kemur inn á sviðið er návist hans staðreynd, enda þótt hann sé ekki alltaf viðstaddur. Hið gelgjulega, óþroskaða, grunaða hjá Eugene túlkar Sigurður á þann hátt að öllum verður minnisstætt. Ég man ekki í fljótu bragði eftir ungum leikara, sem betur hefur gert en Sigurður. Framsögn hans er svo skýr og hnökralaus, að allt, sem hann segir, kemst til skila, og hinar ýktu hreyfingar, leggja áherslu á það sem er framandi í kyrrstæðu umhverfi. Hlutverk hans verður aðalhlutverk frá þeirri stundu, sem hann mælir fyrstu orðin. Bernhard Shaw gefur sérstaklega í þessu hlutverki snjöllum leikara tækifæri til að vinna sigur. Mér finnst Sigurður Skúlason hafa gefið vonir um eitthvað nýtt í leik með túlkun sinni á Eugene Marchbanks, skáldi, og er varla hægt að ætlast til meira af ungum leikara.“
(Jóhann Hjálmarsson í Mbl.)

Malcolm litli (Þ. ´70)
„Sigurður Skúlason fór með hlutverk Inghams, hins næma listnema sem ekki fær orðað hugsanir sínar eða tekið eigin ákvarðanir, heldur dregst inní „samsærið“ af góðsemi og þegnskap við félaga sína, þó honum sé ljóst frá upphafi hvernig fara myndi. Sigurður túlkaði hlutverkið af hreinni snilld, hvert blæbrigði í rödd og látbragði var gerhugsað og túlkunin öll heilsteypt og hrífandi.“
(Sigurður A. Magnússon í Alþ.bl.)

„Sigurður Skúlason virtist gott leikaraefni þegar ég sá hann fyrst og hefur margt vel gert, en á stundum falin stærri hlutverk og torveldari en hann fengi við ráðið. Í þetta sinn tekst honum verulega upp og hefur aldrei leikið eins vel og nú. Ingham segir fátt og er raunar ótalandi að kalla, en búinn listgáfu engu að síður; leikur Sigurðar er bæði hnitmiðaður og skemmtilegur í öllu.“
(Ásgeir Hjartarson í Þjóðv.)

„Ingham, Sigurður Skúlason, er skínandi vel ritað hlutverk og Sigurði tekst mætavel og allspaugilega upp í þessu verkefni. Margsinnis stelur hann sviðinu frá félögum sínum með einstaklega vel unnum leikbrögðum, og hann forðast yfirleitt þau ótæmandi tækifæri til ýkna, sem eru á hverju strái.“
(Agnar Bogason í Mánudagsbl.)

Lér konungur (Þ. ´77)
„Ef tala á um leiksigra, þá held ég að verði að minnast á túlkun Sigurðar Skúlasonar á Játmundi hinum illskeytta, þar sem hann vefur sig inn og út úr atburðarásinni eins og höggormur, stöðugt brallandi – einskonar tákn hins nýja framagjarna einstaklings sem Machiavelli hafði fjallað um og Shakespeare leit hornauga.“
(Aðalsteinn Ingólfsson í Dagblaðinu)

„Sigurður Skúlason var Játmundur sem svo miklu veldur, þjónn hins illa. Túlkun hans var ákveðin, ef til vill full yfirdrifin, en þar mun um skilning leikstjórans að ræða. Sigurður Skúlason er þannig leikari að óhætt er að trúa honum fyrir texta. Það sem hann flytur kemst frábærlega til skila.“
(Jóhann Hjálmarsson í Mbl.)

„Leikur var almennt á mun hærra stigi en við eigum að venjast, menn léku sem innblásnir. Þreytandi yrði að birta hér langa lofgerðarrollu, aðeins skal minnst á örfá minnisverð atriði: voldugan manneskjuleik Rúriks Haraldssonar, snerpu og spennu Sigurðar Skúlasonar,….“
(Sverrir Hólmarsson í Þjóðviljanum)

1977-1987

Stalín er ekki hér (Þ. ´77)
„Sigurður Skúlason hefur til dæmis ekki oft verið betri, hann hefur náð einkar haglegum tökum á þessu hlutverki…“
(Jónas Guðmundsson í Tímanum)

„Sigurður Skúlason hefur líkamnað andlega leti og værukærð Stjána í hengslalegu göngulagi og slöppum hvapholdum.“
(Sverrir Hólmarsson í Þjóðv.)

Neðanjarðarlestin (Alþýðuleikhúsið ´83)
„Mér fannst þau Guðrún (Gísladóttir) og Sigurður fara ágætlega með þetta efni og persónur hvort um sig, og Sigurður vel að merkja svo sem laus úr viðjum, naut sín miklu betur en lengi hefur sést á hans daglega vinnustað í Þjóðleikhúsinu.“
(Ólafur Jónsson í DV)

Guð gaf mér eyra (LR ´83)
„Sigurður Skúlason fer með hið erfiða hlutverk James og er á sviðinu nær allan tímann. Hann verður að nota táknmál heyrnarlausra stöðugt og einnig túlka það sem Sara segir á fingramáli sínu. Hér eru miklar kröfur gerðar til leikarans, en hann stenst þær með prýði. Ég hef ekki í annan tíma séð Sigurð leika jafnvel. Hér er hann í fyrsta sinn á sviðinu í Iðnó og það er líkast því sem sviðið sjálft hafi laðað fram innileika og næmi í leik hans sem maður hefur ekki séð áður.“
(Gunnar Stefánsson í Tímanum)

Milli skinns og hörunds (Þ. ´84)
„Það er alltaf eins og heimurinn sé að farast þegar Sigurður Skúlason birtist á leiksviði. Hann lætur sér ekki nægja minna en allt sviðið. Böðvar hans kom í gámi frá Kaupmannahöfn, fráskilinn og flæktur í eiturlyfjasmygl. Þennan menntamann úr alþýðustétt túlkaði Sigurður af sannfæringu, sýndi að maðurinn er lítið annað en uppruninn og uppeldið.“
(Jóhann Hjálmarsson í Mbl.)

1987-1997

Hættur, farinn (LR ´90)
„Sigurður er mjög einlægur í leik sínum: Áslákur hengslast ýmist slyttislega um sviðið, reynir á fyndinn hátt að uppfylla hlutverk hins ábyrgðarfulla borgara með misjöfnum árangri eða er algerlega ráðalaus ef allt gengur ekki slétt og fellt. Ég man ekki eftir að hafa séð Sigurð leika betur eða meira frá hjartanu en hann gerir hér.“
(Hrund Ólafsdóttir í Veru)

Gleðispilið (Þ: ´91)
„Af fjölmörgum aukahlutverkum er stærst það sem Sigurður Skúlason lék, Hollenstein, falski Hollendingurinn sem verður fangavörður sýslumanns Kjósarsýslu í Múrnum í Reykjavík. Hollenstein varð óhugnanlegur sadisti í meðförum Sigurðar, en þó ekki einhlítur, og hann naut þess að flytja mergjaðan texta sinn.“
(Silja Aðalsteinsdóttir í Ruv)

„Sigurð Skúlason hef ég sjaldan séð leika betur en í hlutverki þrjótsins, Hollenstæns. Mér fannst að vísu óþarfa áhersla á þjösnaskap og ofbeldi þessa brotthlaupna Íslendings sem þóttist vera hollenskur þegar hann sneri aftur heim eftir skuggalegan feril í útlöndum. En Hollenstæn varð engu að síður lifandi og ljós og sjálfum sér samkvæmur í meðförum Sigurðar.“
(Auður Eydal í DV)

Rómeó og Júlía (Þ. ´91)
„Einkum sýndi Sigurður Skúlason afbragðsgóðan leik og atriðin milli Júlíu og pabba hennar urðu óhugnanlega sterk.“
(Silja Aðalsteinsdóttir í Ruv)

„…en textameðferð var almennt góð. Eina undantekningin þar frá var Sigurður Skúlason í hlutverki Kapúletts. Hann öskraði texta sinn eins og ljón og var alveg á skjön við leikstílinn almennt. Svei mér þá, það hlýtur að vera til önnur leið til að koma skilningsleysi, valdagræðgi, frekju og yfirgangssemi Kapúletts til skila, til dæmis með því að setja einhvern annan leikara í hlutverkið. Þetta var afkáralegt.“
(Súsanna Svavarsdóttir í Mbl.)

Afturgöngur (Frú Emelía ´93)
„Bestan leik á Sigurður Skúlason í hlutverki Engstrands smiðs. Það var lunkin mannlýsing og vel unnin hjá Sigurði, enda er hann langreyndastur leikara í sýningunni. Hlutverk hans er kannski þakklátast, en við megum ekki gleyma að smiðurinn er enginn fákænn alþýðumaður, sem vaninn var að gera gys að í eldri leikritum. Með klókindum kemur hann vilja sínum fram og hefur prestinn að lokum á valdi sínu. Því skilaði Sigurður vel.“
(Gunnar Stefánsson í Tímanum)

1954
2014